Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar æfa viðbrögð við sprengjuhótun í erlendu skemmtiferðaskipi

Þriðjudagur 2. ágúst 2005.

Síðastliðinn föstudag hófst sprengjuæfing í Sundahöfn í Reykjavík með áhöfn farþegaskipsins Seven Seas Navigator.  Skipherrann á farþegaskipinu hafði sent erindi til Siglingastofnunar Íslands og óskað eftir slíkri æfingu. Æfingin var skipulögð í samvinnu við öryggisfulltrúa skipsins, öryggisfulltrúa Siglingastofnunar og Landhelgisgæslu Íslands, flugdeild og sprengjudeild.

Bakgrunnur æfingarinnar var að skipið var á ferð innan 12 mílna landhelgi Íslands og þá barst sprengjuhótun þess efnis að hryðjuverkasprengja væri falin um borð.  Skipherrann skipulagði strax sprengjuleit og sprengjan fannst brátt í rafmagnsklefa nálægt skemmtanasalnum í skut skipsins.

Þar næst hafði skipstjórinn samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð.  Skipstjórinn var þá settur í samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar sem ákváðu að fara um borð í skipið án tafar til að aftengja eða eyða sprengjunni.  Þeir voru fluttir um borð í skipið með þyrlu.   

Allt tókst mjög vel og samstarfið á milli skipsins, Siglingastofnunar og Landhelgisgæslunnar var vel unnið og árangursríkt.  Áhöfn skipsins var mjög vel skipulögð og allir tóku þátt í æfingunni eins og um raunveruleika væri að ræða.  Sprengjusérfræðingur voru hífðir um borð úr þyrlu með sérstök verkfæri, tæki og tól og eftir stuttan fund með skipstjóranum var sprengjunni eytt.

Skipstjórinn var mjög ánægður með æfinguna og sérstaklega með að opinber stofnunun á Íslandi gæti brugðist við svona verkefni.  Vegna alþjóðlegra reglna og ástandsins í heiminum í dag eru farþegaskip skyldug til að halda svona æfingu að minnsta kosti tvisvar á ári. 

Landhelgisgæslan og Siglingastofnun ætla að skipuleggja fleiri æfingar í framtíðinni, bæði í höfnum og úti á sjó.  Í haust fer fram stór æfing í Keflavík með sprengjusérsveitum frá Atlantshafsbandalaginu og öðrum löndum Evrópu en það er æfingin Northern Challenge sem Landhelgisgæslan hefur skipulagt undanfarin ár.  Þar á meðal verður sérfræðingur sem hefur sérhæft sig í sprengjuhótunum og hryðjuverkum á farþegaskipum og flutningaskipum á sjó.

Adrian King
sprengjusérfræðingur


Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar látinn síga úr TF-SIF niður í farþegaskipið.


Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, öryggisfulltrúi skipsins og aðrir starfsmenn sem komu að verkefninu að færa til búnaðinn sem notaður var við eyðingu á sprengjunni.


Öryggisfulltrúi skipsins og sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar í sérstökum búningi sem notaður er við sprengjueyðingu.