Björgun áhafnar skútunnar Svölu

Þriðjudagur 2. ágúst 2005.

Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sótti í nótt áhöfn skútunnar Svölu RE, sem stödd var milli Íslands og Færeyja, og flutti hana til Reykjavíkur.

Áhöfn skútunnar Svölu RE, sknr. 1840, var í sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á klukkustundar fresti frá því seinnipartinn í gærdag og óskaði eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar um kl. 22:05 í gærkvöldi en þá var áhöfn TF-LIF þegar kölluð út.  Skútan hafði lent í vandræðum á heimleið frá Færeyjum.

Skútan var búin að missa segl og var í allhvössum vindi er óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Hún var þá stödd á milli Færeyja og Íslands um 130 sjómílur frá Suðausturlandi.  Skútan var keyrð á olíu en orðin olíulítil og ástandið var orðið þannig að áhöfnin óskaði eftir að verða sótt.  Fjórir einstaklingar voru um borð, allt Íslendingar.

TF-LIF fór í loftið kl. 22:47 og var komin að Svölu kl. 1:20 í nótt.  Hífing tókst vel og var búið að ná öllum í áhöfn skútunnar um borð í þyrluna kl. 2.  Þyrlan lenti síðan á Hornafirði rúmlega 3 til að taka eldsneyti.  Þaðan var haldið kl. 3:55 og lenti TF-LIF við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 5:17.

Skútan Svala var smíðuð 1987 í Sadleryachts. Hún er nú mannlaus á reki.  Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn TF-LIF tók af skútunni í nótt.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.