Varðskipið Týr kom að áströlsku skútunni

Varðskipið Týr var komið að áströlsku skútunni sem óskað hafði aðstoðar vegna leka, rúmlega tíu í gærkvöldi. Varðskipsmenn fluttu tæpa 220 lítra af eldsneyti yfir til skútunnar og einnig könnuðu þeir skemmdir á henni.

Að lokinni eldsneytisgjöf og mati á skemmdum var ákveðið að skútan héldi til hafnar á Íslandi til viðgerðar en ekki var talin þörf á að varðskipið fylgdi skútunni. Skútan er í samfloti með annarri skútu sem mun fylgja henni til hafnar og eru þær væntanlegar seinnipartinn á morgun, fimmtudag.

Meðfylgjandi myndir af vettvangi tók áhöfnin á varðskipinu Tý.

 
Varðskipsmenn flytja eldsneyti yfir til skútunnar á léttbát varðskipsins.
 
Alls voru fluttir tæpir 220 lítrar af eldsneyti yfir til skútunnar í 20 lítra brúsum.