Þyrla Landhelgisgæslunnar heldur aftur af stað til leitar

  • GNA2

Nánari upplýsingar frá Landhelgisgæslu Íslands í framhaldi af neyðarboðum frá neyðarsendi skútu sem saknað hefur verið frá því í sumar.

Klukkan 04:46 barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarboð frá neyðarsendi franskrar skútu sem saknað hefur verið frá því í sumar. Skútan hafði siglt frá Portúgal þann 7. júlí sl. og hafði áætlað komu til Azoreyja þann 16. júlí sl.  Einn maður var í áhöfn.

Ekkert hefur hins vegar spurst til skútunnar fyrr en í morgun er neyðarboðin bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og kom fram að þau bærust skammt austur af Grindavík. Þá þegar var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang og fór hún í loftið um hálfsex í morgun. Rétt fyrir klukkan sex fann áhöfn þyrlunnar neyðarsendinn upp í fjöru austur af Hópsnesi. Seig sigmaður þyrlunnar niður og sótti sendinn. Engin önnur vegsummerki fundust þá á vettvangi og var því ákveðið að bíða birtingar með áframhaldandi leit og óskaði Landhelgisgæslan einnig eftir aðstoð björgunarsveita á svæðinu til að ganga fjörur.

Á áttunda tímanum í morgun hélt björgunarsveitin í Grindavík af stað til leitar. Rétt um klukkan 08:40 fannst brak sem talið er vera úr skútunni og verður leit nú haldið áfram. Þyrla Landhelgisgæslunnar er nýfarin aftur á vettvang til frekari leitar.