BRAVO Mánaberg

Fréttalína frá flugdeild nr.2,  24.7.2005

 

Kl.1615 var TF-LIF kölluð út vegna veikinda áhafnarmeðlims af Mánabergi ÓF sem staddur var djúpt vestur af Bjargtöngum. Haldið var af stað frá Reykjavík kl.1707 í þoku og súld, en þegar í loftið var komið og aðeins í nokkur hundruð feta hæð klifruðum við upp í glampandi sól og sumar, og mikinn hita! Höfðum við búið okkur vel, eða miðað við aðstæður eins og þær voru á vellinum og vorum í hlýjum og góðum fötum. Á leiðinni til móts við Mánabergið var ástandið í þyrlunni eins og í bakaraofni, og féllu allnokkrir svitadropar bara við að draga andann þarna uppi. Vel vestur af Snæfellsnesi, ca. 50 sjml. var glampandi sól og 19°c hiti í háloftunum (3000 fetum) svo ástandið var frekar “hot”!.

80 sjml. vestur af Bjargtöngum komum við til móts við Mánabergið ÓF, og hífðum við hinn sjúka upp í þyrluna. Komum á staðinn kl.1854 og lukum hífingu kl.1902. Sigmaður fór um borð og bjó manninn til flutnings. Hífingin gekk mjög vel, og héldum við til Reykjavíkur í 5000 feta hæð með sólina í bakið...

Þegar til Reykjavíkur kom tók sjúkrabíll við hinum sjúka og flutti hann á LSH Hringbraut til frekari skoðunar, en á leiðinni var hann í ágætu standi og lífsmörk góð.

Lent var í Reykjavík kl.2022 eftir velheppnað flug.