Útkall ALFA í Little Swan

Fimmtudagur 21. júlí.

 

Kl.1012 barst kall frá ástralskri skútu að nafni LITTLE SWAN sem var stödd við Fjallaskaga utarlega við norðanverðan Dýrafjörð. Skipstjórinn hafði fengið hjartaáfall og var óskað tafarlausrar aðstoðar. Þyrla LHG, TF-LIF, var þegar kölluð út ásamt björgunarbát SL frá Ísafirði.

Kl.1033 hélt TF-LIF af stað vestur til móts við skútuna.

Kl.1045 kom skemmtiferðaskipið Explorer að skútunni og sendi lækni um borð. Við athugun kom í ljós að full þörf var á að koma manninum í land en líðan hans var þó stöðug. Sjúklingurinn var fluttur um borð í Explorer, þaðan sem hann var hífður um borð í þyrluna um kl.1144. Einnig var ung kona úr áhöfn skútunnar tekin með til Reykjavíkur, hinum sjúka til halds og trausts. Þyrlan lenti í Reykjavík um kl.1250 þar sem sjúkrabifreið frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tók við sjúklingnum og flutti á LSH Hringbraut.

Alls voru 5 menn í áhöfn seglskútunnar, 1 ástralskur, 2 danskir og tveir breskir. Þeir þrír sem eftir voru um borð ætluðu að sigla skútunni til Reykjavíkur.