Námskeið starfsmanna stjórnstöðvar LHG í Bretlandi

Tveir starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga, Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri og Jón Ebbi Björnsson varðstjóri sóttu nýlega viku námskeið í þjálfunarstöð bresku strandgæslunnar í Highcliffe Christchurch nærri Bournemouth á Englandi. Auk þeirra sóttu námskeiðið tveir starfsmenn neyðarlínunnar í vaktstöð siglinga, þeir Harald Holsvik og Björn Júlíusson og Þórður Þórðarson frá Siglingastofnun Íslands. Björn Júlíusson sótti námskeiðið skömmu áður.

 

Námskeiðið fjallaði um fjölmargt sem tengist starfsemi sjóbjörgunarstjórnstöðva og var í samræmi við alþjóðlegar kröfur í því efni. Auk þess kynntust við nokkuð vel vinnubrögðum breskra sjóbjörgunarstjórnstöðva sem viðurkennt er að eru í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Námskeiðið var hluti af endurmenntunarferli fyrir starfsmenn vaktstöðvar siglinga.

 

Mynd tekin fyrir framan þjálfunarstöðina í Steamer Point frábæru veðri, talið frá vinstri: Jón Ebbi Björnsson LHG, Paul Cardell MCA aðalkennari, Þórður Þórðarson Siglingastofnun, Harald Holsvik NL og Hjalti Sæmundsson LHG. Mynd: Jón Ebbi Björnsson.

 

 

Þjálfunarstöðin er staðsett á efri hæð nýs tveggja hæða húss við ströndina á Steamer Point.

Staðsetning og fyrirkomulag er dæmigerð fyrir sjóbjörgunarstjórnstöðvar víðast hvar. Mynd: Jón Ebbi Björnsson.

 

Vinnuaðstaðan er frábær, björt og rúmgóð. Menn voru á einu máli um að frábærlega hefði tekist til með húsnæði og vinnuaðstöðu í stöðinni, og að hún væri glæsileg fyrirmynd annarra sjóbjörgunarstjórnstöðva. Mynd: Hjalti Sæmundsson.

 

Hjalti Sæmundsson

Aðalvarðstjóri stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands