Samstarfsyfirlýsing undirrituð á fundi ACGF

Strandgæslustofnanir norðurskautsríkjanna átta komu saman í Boston

Yfirmenn strandgæslustofnana norðurskautsríkjanna átta undirrituðu á fundi sínum í Boston fyrir helgi mikilvæga yfirlýsingu samvinnu og stefnu ríkjanna í leit, björgun, mengunarvörnum og öðru er varðar öryggi þeirra sem fara um norðurslóðir. Á meðal þess sem ríkin féllust á er að halda stóra æfingu í september 2017 þar sem æfð verða viðbrögð við stórslysi á hafinu milli Íslands og Grænlands. Æfingin hefur hlotið nafnið Arctic Guardian. Allar þjóðirnar munu taka þátt og fimm þeirra koma með mannskap og tækjabúnað, svo sem skip og loftför.

Dagana á undan sátu sérfræðingar frá öllum norðurskautsríkjunum átta vinnufundi þar sem yfirlýsingin var útbúinn. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd stofnunarinnar. 


Strandgæslustofnanir átta ríkja (Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands, Rússlands, Kanada og Bandaríkjanna) mynda samráðsvettvanginn Arctic Coast Guard Forum. Bandaríska strandgæslan hefur farið með formennsku í ACGF undanfarin tvö ár, eða frá því hópurinn var settur saman. Á fundinum í Boston tók finnska strandgæslan við formennskunni til næstu tveggja ára. Að þeim tíma loknum mun Landhelgisgæsla Íslands leiða Arctic Coast Guard Forum, þ.e. tímabilið 2019-2021.