Þyrlurnar sendar út vegna kajakræðara

Tveir kajakræðarar misstu bátana í Þjórsárósum

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út á tíunda tímanum í gærkvöld vegna tveggja kajakræðara sem saknað var við Þjórsárósa. TF-LIF fór í loftið klukkan 21.44 og TF-GNA stundarfjórðungi síðar.

Þegar TF-LIF kom á vettvang voru lögregla og björgunarsveitir komnar á staðinn. Lent var í fjörunni til að taka um borð lögreglumann og ættingja annars mannanna. Sá var í símasambandi við annan þeirra sem var í sjónum og auðveldaði það leitina. Þrátt fyrir aðstæður væru erfiðar, slæmt veður og talsverð ölduhæð, fundust kajakræðararnir fljótlega í sjónum. Var annar þeirra hífður um borð í TF-LIF og var sá á orðinn þrekaður og kaldur.

Í sömu andrá kom TF-GNA og var ákveðið að hún sæi um að bjarga hinum úr sjónum. Áhöfn TF-LIF kastaði blysum í sjóinn til að merkja staðinn um leið og hlúð var að manninum sem kominn var um borð. Sigmaður TF-GNA bjargaði hinum manninum úr sjónum örfáum mínútum síðar, en þá var klukkan um hálfellefu.

Á leiðinni til Reykjavíkur lentu þyrlurnar á Selfossi svo læknir gæti farið úr TF-LIF yfir í TF-GNA til að sinna manninum sem þar var. Þyrlurnar lentu svo við Landspítalann í Fossvogi um klukkan hálftólf. Ljóst er að það skipti miklu máli að tvær þyrlur voru til taks því erfitt hefði verið að sinna leit og bjarga tveimur mönnum við þessar aðstæður með aðeins einni þyrlu.