TF-LIF æfði með þýskum kafbáti

Þyrlan og þýski kafbáturinn U-32 efndu til sameiginlegrar björgunaræfingar á Faxaflóa

Kafbátar eru eðli málsins samkvæmt sjaldséðir gestir á Faxaflóa, að minnsta kosti á yfirborðinu. Í nýliðinni viku var einn slíkur þar á kreiki, þýski kafbáturinn U-32. Hann var hér við land í tengslum við Dynamic Mongoose 2017, kafbátaleftirlitsæfingu Atlantshafsbandalagsins sem lauk fyrir skemmstu.

Á mánudag gafst þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kærkomið tækifæri til að efna til björgunaræfingar með áhöfnum kafbátsins og fylgdarskipsins Main skammt norður af Garðskagavita. Slys og óhöpp geta komið upp í kafbátum eins og öðrum skipum og þeir lent í sjávarháska. Ef slíkt myndi gerast á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu kæmi til kasta Landhelgisgæslunnar.

Æfingin var í sjálfu sér ekki flókin. Eftir að tengilínu hafði verið slakað úr TF-LIF niður á þilfar kafbátsins seig sigmaður þyrlunnar niður og á eftir honum komu tveir starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Sigmaðurinn fór svo aftur upp. Svipað var uppi á teningnum við fylgdarskipið Main. Sigmaðurinn fór niður og svo læknir þyrlunnar og sjúkrabörur. Mennirnir og börurnar voru síðan hífðar aftur upp og auk þeirra tveir skipverjar af Main. Þeim var síðan skilað aftur niður í skipið stundarkorni síðar og þyrlan flaug til Reykjavíkur.

Síðar um daginn fór TF-LIF aftur á vettvang en með aðra áhöfn til þess að sem flestir gætu spreytt sig við þessar óvenjulegu aðstæður. Teknar voru nokkrar hífingar við kafbátinn og fylgdarskipið Main og voru starfsmenn LHG sem fóru í kafbátinn á fyrri æfingunni sóttir. Að því búnu var haldið á ný til Reykjavíkur. Voru allir sem komu að þessum æfingum ánægðir með hvernig til tókst.

Með því að smella á þessa krækju er hægt að sjá myndband frá æfingunni.