Flutningaskipinu Sunny Jane vísað frá höfn í Hollandi og neitað um þjónustu

Þriðjudagur 7. júní 2005.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Landhelgisgæslan undanfarið verið með eftirlit á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) á Reykjaneshrygg en þar hafa m.a. sjóræningjaskip verið að veiðum. 

Ísland er aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni ásamt Evrópusambandslöndunum, Noregi, Færeyjum, Grænlandi, Rússlandi, Eistlandi og Póllandi.  Þau skip sem veiða án leyfis og kvóta á svæðinu eru kölluð sjóræningjaskip. 

Þann 27. maí tók áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, mynd af flutningaskipinu Sunny Jane taka við fiski frá togaranum Okhotino sem skráður er í Dominika.  Landhelgisgæslan tilkynnti stjórn NEAFC um þetta þar sem Okhotino hefur ekki leyfi til veiða á svæðinu.

Sunny Jane kom til hafnar í Emshaven í Hollandi 2. júní sl. og sætti rannsókn hollenskra yfirvalda. Skipinu var meinað að landa aflanum og fékk enga þjónustu í Hollandi en það er í samræmi við reglur NEAFC sem hafa verið lögfestar í aðildarríkjunum.  Sjá um þetta 3. gr. laga nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á slóðinni:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1998022.html

Aðildarríki NEAFC halda áfram að fylgjast með ferðum skipsins.  Við rannsókn hollenskra yfirvalda um borð í Sunny Jane kom í ljós að flutningaskipið hafði tekið við afla frá skipunum Orlik, Olchano, Ostor, Oyra og Olchan.  Tvö síðastnefndu skipin eru á svarta lista NEAFC, B-listanum, sem sjóræningjaskip.  Auk þess hafði Landhelgisgæslan staðið skipið Okhotino að því að umskipa afla yfir í Sunny Jane eins og áður segir.

Sjá heimasíðu NEAFC á slóðinni:

http://neafc.org/

Þar sést að Sunny Jane er komin á svartan lista NEAFC, svokallaðan A-lista (undir dálkinum MEASURES).

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.

Fiskveiðistjórnunarsvæði NEAFC á Reykjaneshrygg.