Félagsdómur dæmdi flugmönnum Landhelgisgæslunnar í hag - flugmenn eiga rétt á að ferðast á viðskiptafarrými

Mánudagur 6. júní 2005.

Eftir að kjarasamningur ríkisins við flugmenn Landhelgisgæslunnar var samþykktur 25. ágúst 2004 kom upp ágreiningur um hvort ákvæði greinar 17-16 í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) við Flugleiðir hf/Icelandair ehf. gilti um flugmenn Landhelgisgæslunnar.  Í ákvæðinu segir:

Bóka skal flugmenn á viðskiptafarrými eða betra þegar ferðast er á vegum Icelandair eða annarra fyrirtækja Flugleiðasamstæðunnar (Flugleiða hf), hvort sem er með eigin vélum eða öðrum flugfélögum. Flugmaður víkur sæti fyrir fullborgandi farþega í vélum Icelandair. Þó  er heimilt að ætla flugmanni annað en viðskiptafarrými með erlendum flugfélögum sé áætlaður flugtími innan við eina klst.

Í 10. gr. laga nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands segir:

Laun og kjör þeirra starfsmanna, sem vinna að staðaldri við störf á sjó eða í lofti, skulu vera í samræmi við kjarasamninga viðkomandi stéttarfélaga, eftir því sem við á, eða eftir sérstökum samningum stéttarfélaga við stjórn Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt þessu ákvæði eru laun og önnur kjör flugmanna Landhelgisgæslu Íslands byggð á samningi FÍA við Flugleiðir hf/Icelandair ehf.  Ríkið gerir þó sérstakan stofnunarsamning við flugmenn Landhelgisgæslunnar og er í honum vísað í fyrrgreindan kjarasamning Flugleiða hf/Icelandair ehf. við FÍA.

Af hálfu ríkisins var því m.a. haldið fram að framangreint ákvæði væri óframkvæmanlegt fyrir ríkið þar sem það rekur ekki farþegaflugfélag en eins og áður segir tapaði ríkið málinu gegn FÍA.

Sjá dóm Félagsdóms í heild á heimasíðu Félagsmálaráðuneytisins á slóðinni:

http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/Felagsdomur/2005/05/30/nr/1972

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.