Spænskur sjómaður sóttur með þyrlu út á Reykjaneshrygg

Sunnudagur 22. maí 2005.

 

Vaktstöð siglinga og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni frá björgunarstjórnstöðinni í Madrid kl. 11:18 um aðstoð við veikan spænskan sjómann af togaranum Hermanos Gandon Quadro sem var staddur á úthafskarfaslóð 220 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.  Talið var nauðsynlegt að flytja sjómanninn sem fyrst á sjúkrahús þar sem hann var með öll einkenni botnlangakasts.

 

Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 11:35.  Einnig var haft samband við varnarliðið og óskað eftir aðstoð þar sem um svo langa vegalengd var að ræða. Varnarliðið samþykkti þegar að senda fygldarþyrlu með TF-LIF.

 

Að sögn Benónýs Ásgrímssonar yfirflugstjóra hjá Landhelgisgæslunni er þetta í fyrsta skipti sem varnarliðsþyrla fylgir TF-LIF í öryggisskyni.  Ástæðan er sú að minni þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF,  hefur ekki flugdrægi til að fylgja TF-LIF svo langa leið og flugvél Landhelgisgæslunnar ,TF-SYN, er í viðgerð.  Benóný sagði sjúkraflugið hafa tekist vel og samvinna við áhöfn varnarliðsþyrlunnar hefði verið eins og best verður á kosið.

 

TF-LIF fór í loftið kl. 12:48 og varnarliðsþyrlan nokkru síðar.  Kom TF-LIF að skipinu um kl. 14:30 og var hífingu lokið kl. 14:50. Þyrlurnar komu svo til baka um kl. 16:40 og lenti TF-LIF á Reykjavíkurflugvelli þar sem sjúkrabíll sótti veika sjómanninn.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem Friðrik Sigurbergsson læknir í áhöfn TF-LIF tók þegar verið var að sækja spænska sjómanninn og ein myndin er af þyrlu varnarliðsins sem fylgdi TF-LIF.

 

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.