Heimsókn forstjóra Landhelgisgæslunnar til Færeyja

Föstudagur 20. maí 2005.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson, fór nýlega í heimsókn til Færeyja ásamt yfirmanni gæsluframkvæmda, Kristjáni Þ. Jónssyni, auk áhafnarinnar á varðskipinu Tý. 

Landhelgisgæslumenn fóru til Færeyja í boði danska sjóhersins og kynntu sér meðal annars flotastöð danska sjóhersins, flugratsjárstöðina á Sornfelli, sjóbjörgunarstjórnstöðina og fiskveiðieftirlitið.  Forstjóranum og yfirmanni gæsluframkvæmda var boðið í siglingu á færeyska varðskipinu Brimli og útsýnisferð um eyjarnar með þyrlu danska sjóhersins.

Tilgangurinn með heimsókninni var að miðla reynslu og upplýsingum og skiptast á skoðunum um sameiginleg verkefni. Einnig voru skoðaðir möguleikar á auknu samstarfi.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.


Frá vinstri: Cdr. Eli Lyngvej-Larsen, Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý, Lt. Col. Ole V. Friederich, Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Capt. Jan . Leisborch yfirmaður dönsku flotastöðvarinnar í Færeyjum, Cdr. Michael Kristensen DLO officer, Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Thorben J. Lund yfirstýrimaður á varðskipinu Tý. (Mynd: SCPO Henning Clemens Poulsen, Island Command Faroes).


Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra yfirmenn v/s Tý standa heiðursvörð þegar varðskipið Brimill sigldi fram hjá með forstjóra Landhelgisgæslunnar og yfirmann gæsluframkvæmda inn í höfnina í Þórshöfn.  Frá vinstri : Guðjón Finnbogason bryti, Thorben Lund yfirstýrimaður, Gunnar Pálsson yfirvélstjóri og Guðmundur Rúnar Jónsson 2. stýrimaður . Uppi á brúarvæng er Sigurður Steinar Ketilsson skipherra. (Mynd: Ólafur Kjartansson háseti á varðskipinu Tý.)


Ef vel er að gáð má greina forstjóra Landhelgisgæslunnar og yfirmann gæsluframkvæmda úti á brúarvæng færeyska varðskipsins Brimils að svara heiðursverði varðskipsins Týs er Brimill sigldi inn höfnina í Þórshöfn. (Mynd: Ólafur Kjartansson háseti á varðskipinu Tý.)