Mannbjörg varð er kviknaði í fiskibátnum Hrund í nótt

Mánudagur 16. maí 2005.

Mannbjörg varð er kviknaði í fiskibátnum Hrund BA-087 í nótt.

Skipstjóri fiskibátsins Seifs BA-17 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og Vaktstöð siglinga kl. 4:47 og tilkynnti að mikill reykur væri á Patreksfjarðarflóa.

Nokkrum mínútúm síðar, kl. 4:55, bárust þær upplýsingar frá skipstjóranum á fiskibátnum Ljúfi BA-302, að hann sæi logandi bát í norðvesturátt frá sér og síðar sást neyðarflugeldur á lofti yfir staðnum.  Nærliggjandi bátar voru þegar kallaðir út á rás 16 og beint að staðnum.

Fljótlega kom í ljós að um fiskibátinn Hrund BA-87 frá Patreksfirði var að ræða.  Báturinn datt út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni kl. 5:02 og var hann þá staddur 37 sjómílur norðvestur af Patreksfirði.  Björgunarbátar frá Ísafirði og Patreksfirði voru kallaðir út.

Skipstjóri fiskibátsins Ljúfs hafði samband kl. 5:12 og tilkynnti að eini skipverji Hrundar væri kominn um borð í Ljúf og hann væri allþrekaður.  Skipstjóri Ljúfs hélt þegar með manninn til Patreksfjarðar og var reiknað með komu bátsins þangað um sjöleytið í morgun.  Björgunarsveitarbátar voru afturkallaðir eftir að þessar upplýsingar höfðu borist.

Skipstjóri fiskibátsins Kríu BA-75 hafði samband kl. 5:20 og sagðist vera við flakið af Hrund sem væri alelda.  Ætluðu skipverjar á Kríunni að taka að landi björgunarbát Hrundar sem var á floti við bátinn.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.