Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði að trillu sem saknað var út af Akranesi - Trillan fannst í Hafnarfirði

Föstudagur 6. maí 2005.
 
Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11:35 og lét vita að trilla hefði dottið út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni skammt vestur af Akranesi.  Ekkert samband náðist við trilluna.  Haft var samband við annan bát sem var nánast á sama stað og síðast var vitað um trilluna en skipstjórinn á þeim bát hafði ekki orðið var við hana.
 
Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 11:38 og fór þyrlan í loftið kl. 11:57.  Hún leitaði á svæðinu án árangurs.  Skömmu eftir að þyrlan hóf leit hafði Tilkynningarskyldan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og lét vita að trillan sem saknað var hefði fundist í Hafnarfirði. 
 
Ekki er vitað hvernig stóð á því að trillan sendi upplýsingar um staðsetningu út af Akranesi.
 
Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.