Þyrla Varnarliðsins flutti slasaðan sjómann

Sunnudagur 10. apríl 2005.

Skipstjórinn á togaranum Snorra Sturlusyni hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 1 í nótt og tilkynnti að skipverji um borð hefði slasast og óskaði eftir aðstoð.  Skipið var þá statt 30 sjómílur suður af Ingólfshöfða.  Skipverjinn hafði fengið gils í brjóstkassa og var þungt haldinn.

Læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar hafði þegar samband við skipstjórann til að fá upplýsingar um líðan slasaða skipverjans og gefa ráðleggingar um umönnun hans.  Þar sem þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar hafði verið við umfangsmiklar æfingar á Austurlandi yfir daginn var óskað eftir þyrlu Varnarliðsins.  Hún sótti slasaða skipverjann og kom með hann til Keflavíkur í morgun en þaðan var hann fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur og lagður inn á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.