Sótt með þyrlu eftir bílveltu á Hrútafjarðarhálsi

Laugardagur 12. febrúar 2005.

Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:40 og gaf samband við lækni á Hvammstanga.  Hann óskaði eftir þyrlu til að sækja unga konu sem lent hafði í bílveltu á Hrútafjarðarhálsi.  Konan var í annarlegu ástandi sem talið var alvarlegt en það var ekki rakið til bílveltunnar. Illfært var fyrir sjúkrabíl að flytja hana til Reykjavíkur vegna snjókomu og hálku.

Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 15:34. Konan var flutt með sjúkrabíl á móti þyrlunni og var ákveðið að TF-LIF kæmi til móts við hann á Holtavörðuheiði því að veðrið þar var nokkuð skárra en annars staðar á leiðinni.  Þyrlan lenti á Holtavörðuheiði kl. 16 og kom til Reykjavíkur með konuna kl. 16:50.  Hún var flutt á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.