Rauð blikkljós í bifreiðum starfsmanna þyrluáhafna Landhelgisgæslunnar gefast vel

Mánudagur 27. desember 2004.

Mikilvægt er fyrir þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar að komast greiðlega leiðar sinnar út á Reykjavíkurflugvöll í útköllum enda getur verið lífsspursmál í sumum tilfellum hversu fljótt þyrlan kemst á slysstað.  Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar var sagt frá því 30. september sl. að starfsmenn þyrluáhafna hefðu fengið rauð blikkljós í bíla sína til að auðvelda þeim að komast áfram í umferðinni þegar þeir eru á leið í bráðaútkall (ALFA-útkall).  Sjá slóðina: http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1591

Rauðu blikkljósin eru á sólskyggni farþegamegin í bílum starfsmannanna.  Friðrik Höskuldsson stýrimaður í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar segir að reynslan af ljósunum sé mjög góð.  Sem dæmi nefnir hann að vikuna 13.-20. desember var þyrluáhöfn í þrígang kölluð út með bráðaútkalli en það þýðir að um líf eða dauða sé að tefla.  Þessi útköll voru á þeim tíma dags sem umferð í Reykjavík er mikil, eitt þeirra t.d. um kl. 16:30.  Friðrik notaði blikkljósin á leið sinni út á flugvöll og segir að ökumenn hafi tekið fullt tillit til sín, vikið fyrir sér og jafnvel stöðvað úti í kanti svo hann kæmist leiðar sinnar.  Þá hafi hann einnig notið aðstoðar lögreglunnar til að komast áfram í umferðinni.  Friðrik vill koma á framfæri þakklæti til bílstjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna tillitsemi þeirra og segir að félagar hans í þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar hafi svipaða sögu að segja.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.