Áhafnir varðskipanna sækja reykköfunar- og slökkvinámskeið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Miðvikudagur 27. október 2004.

 

Haustin eru tími æfinga og þjálfunar hjá Landhelgisgæslunni.  Árlega fara áhafnir varðskipa á námskeið í reykköfun og slökkvistörfum hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og eru meðfylgjandi myndir teknar á slíkri æfingu sem áhöfn varðskipsins Ægis sótti.

 

Byrjað er á bóklegri upprifjun í fræðunum og svo er farið í verklegar æfingar á æfingasvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við Úlfarsfell.  Þar er líkt eftir skipsbruna með því að kveikja eld í gámum.  Landhelgisgæslumenn slökkva svo eldinn og æfa reykköfun. 

 

Áhafnir varðskipanna nota eigin búnað, bæði búninga og fjarskiptatæki.  Ákveðinn hópur um borð í skipunum þjálfar reykköfun en allir um borð tengjast verkefninu með einhverjum hætti.  Mikilvægt er að viðhalda þekkingu á þessu sviði um borð í varðskipunum.  Árlegu námskeiðin eru liður í því auk þess sem áhafnir varðskipanna læra nýja tækni og aðferðir við að slökkva elda.

 

Námskeiðin hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru mjög fagleg og hafa reynst vel.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu Ægi tók á dögunum þegar varðskipsmenn voru í verklegum æfingum við Úlfarsfell.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Menn að gera sig klára í slaginn. Jóhann Örn Sigurjónsson háseti og kafari, Rafn Sigurðsson háseti og Sigurður Óskarsson háseti.

 

Kveikt er bál í gámunum og þannig líkt eftir skipsbruna. Síðan æfa varðskipsmenn sig í að slökkva eld og reykkafa.

 

Ásmundur Pétursson háseti sótugur eftir bardaga við eld og reyk.