Nemendur í Lögregluskólanum æfa sjóbjörgun hjá Landhelgisgæslunni

Miðvikudagur 20. október 2004.

 

Í vikunni var haldið námskeið í sjóbjörgun fyrir nemendur í Lögregluskólanum.  Landhelgisgæslan hefur undanfarin ár séð um að halda slík námskeið fyrir lögreglunema.  Það var upphaflega Thorben Lund yfirstýrimaður á Tý sem skipulagði námskeiðið og sá um það fyrstu árin en nú hefur Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild umsjón með því. 

 

Námskeiðið byrjar með hálfs dags bóklegri kennslu.  Byrjað er á kynningu á starfsemi Landhelgisgæslunnar og síðan eru nemendur fræddir um björgunartæki og léttbáta.  Þá er farið í rannsókn sjóslysa og lögbrota um borð í skipum og kennd undirstöðuatriði í móttöku þyrlu. Sjá fræðslu um móttöku þyrlu á heimasíðu Landhelgisgæslunnar á slóðinni: /displayer.asp?cat_id=27

 

Verklega námið stendur yfir í heilan dag.  Nemendur byrja á því að hittast við Reykjavíkurhöfn.  Þar skoða þeir varðskip og síðan er þeim skipt upp í þrjá hópa sem ganga milli þriggja æfingastöðva.  Einn hópur æfir sig í að bjarga fólki úr sjó og fær einnig þjálfun í að bregðast við þegar léttbátur með nokkra nemendur innanborðs hvolfir, annar hópurinn lærir að stjórna (zodiac) léttbátum og þriðji hópurinn lærir að fara með harðbotna björgunarbáta og björgun manna um borð í þá.

 

Þar næst er farið í kappsund í sjónum.  Allir þátttakendur eru klæddir björgunarbúningum og það eru talsvert öðruvísi sundtök sem menn þurfa að tileinka sér til að komast áfram í slíkri múnderingu miðað við venjulegt sund í sundlaug.

 

Að sundinu loknu fá lögregluskólanemar þjálfun í að sigla léttbátunum upp að skipi á ferð.  Námskeiðinu lýkur svo með því að allir lögregluskólanemarnir eru hífðir upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flytur þá út á Reykjavíkurflugvöll en þar fá þeir kynningu um starfsemi flugdeildar.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók í vikunni þegar æfingar stóðu yfir.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Lögregluskólanemar búa sig undir að stökkva í sjóinn.

 

Kappsund.

 

Thorben og Auðunn leiðbeindu á námskeiðinu.

 

Meðferð björgunarbáta æfð.

 

Allur hópurinn um borð í varðskipinu Ægi ásamt Auðunni F. Kristinssyni leiðbeinanda frá Landhelgisgæslunni lengst til hægri.

 

Allir nemendurnir voru fluttir með þyrlunni TF-LIF frá varðskipinu Ægi út í flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll þar sem þeir fræddust um starfsemi flugdeildarinnar.