Fjögur skip á vegum rússneska sjóhersins enn á Þistilfjarðargrunni

Mánudagur 11. október 2004.

Landhelgisgæslan hefur fylgst með rússneskum herskipum fyrir norðaustan land frá því að áhöfn TF-SYN sá þau fyrst í gæsluflugi 29. september sl.  Varðskip hefur verið á svæðinu að fylgjast með og leigði Landhelgisgæslan flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, til að halda uppi eftirliti á svæðinu eftir að TF-SYN fór í skoðun 1. október sl.

Á sunnudagsmorguninn lét skipherrann á flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov skipherrann á varðskipi Landhelgisgæslunnar vita að skipin færu af svæðinu eftir 24 klst.  Átta tímum síðar hélt flugmóðurskipið á brott.  Tvö önnur skip héldu af svæðinu í morgun.   Eftir varð herskipið Pétur mikli, eitt birgðaskip og tvö dráttarskip. 

Er skipherrann á varðskipinu hafði samband við skipherrann á Pétri mikla um kl. 14:30 í dag sagðist hann ætla að halda á brott eftir 36 klst.

Um níuleytið í morgun flaug norsk P-3 Orion flugvél yfir svæðið og upp úr hádeginu urðu varðskipsmenn varir við breska Nimrod vél á svæðinu og flaug hún í burtu um kl. 15.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Pétur mikli og einn dráttarbátur.