Danski herinn gefur Landhelgisgæslunni sérútbúnar bifreiðar og vélmenni til sprengjueyðingar

Þriðjudagur 5. október 2004.

 

Dómsmálaráðherra og forstjóri Landhelgisgæslunnar tóku formlega við tveimur sérútbúnum bifreiðum og tveimur vélmennum til sprengjueyðingar ásamt tilheyrandi búnaði að gjöf frá danska hernum við Þjóðmenningarhúsið í dag.

 

Landhelgisgæslan hefur verið í miklum og góðum samskiptum við danska herinn í áratugi og hafa sprengjusérfræðingar stofnunarinnar m.a. sótt menntun og þjálfun til hans.  

 

Þegar forstjóri og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru í heimsókn hjá danska hernum í febrúar á þessu ári var þeim m.a. boðið að skoða útbúnað sprengjueyðingarsveitar danska landhersins.  Við það tækifæri var upplýst að fyrirhugað væri að endurnýja hann seinna á árinu.  Í framhaldi af því ákvað danski herinn að gefa Landhelgisgæslunni þann búnað sem verið var að skipta út.

 

Vélmennin, sem eru af gerðinni HOBO, eru smíðuð í Írlandi.  Hægt er að fjarstýra þeim í leit að sprengjum og við eyðingu þeirra og draga þannig úr hættu á að sprengjusérfræðingar slasist eða látist við skyldustörf.  Helstu kostir vélmennanna, umfram það vélmenni sem Landhelgisgæslan á fyrir, eru að hægt er að nota þau til fjölbreytilegri verkefna og með skjótvirkari hætti.  Þau eru einnig talsvert aflmeiri.  Vélmennin eru flutt milli staða með bifreiðum sem eru sérútbúnar í þeim tilgangi.  Í þeim eru margs konar tæki sem sprengjusérfræðingar nota, t.d. myndavélar og vopn til sprengjueyðingar. 

 

Það er mikil framför fyrir Landhelgisgæsluna að fá þennan búnað og er mikilsvert framlag til öryggismála á Íslandi. 

 

Fjórir fulltrúar danska hersins verða hér á landi næstu daga til að kenna sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar á búnaðinn og þjálfa þá í notkun hans. 

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru við Þjóðmenningarhúsið í dag þegar dómsmálaráðherra og forstjóri Landhelgisgæslunnar tóku formlega við gjöfinni. Ræðismaður Dana og fulltrúar danska hersins afhentu gjöfina.  Viðstaddir voru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, yfirmenn frá dómsmálaráðuneytinu og Landhelgisgæslunni og  fulltrúi Eimskipafélagsins en Eimskip tók að sér, endurgjaldslaust, að flytja vélmennin og bifreiðarnar til Íslands frá Danmörku.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

 

Mynd DS:  Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur, Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður ráðherra, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri og Stefán Eiríksson skrifstofustjóri virða fyrir sér nýja vélmennið.  Inni í sérútbúnu bifreiðinni er Ágúst Magnússon sprengjusérfræðingur að stjórna vélmenninu. 

 

 

Mynd DS: Dönsku sprengjusérfræðingarnir ásamt Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra, Hafsteini Hafsteinssyni forstjóra, Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra og Þorsteini Davíðssyni aðstoðarmanni ráðherra fyrir utan Þjóðmenningarhúsið í dag.

 

 

Mynd: Adrian King:  Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur virða vélmennið fyrir sér.