Breskir flugáhugamenn fljúga með TF-SYN

Fimmtudagur 30. september 2004.

Í dag komu tveir Bretar, Matt Wise og Pete Towey, í heimsókn til Landhelgisgæslunnar en þeir höfðu óskað eftir því að fá að fljúga með TF-SYN, Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, vegna sérstaks áhuga á eldri flugvélum. Þar sem vel stóð á var hægt að heimila þeim að fá að sitja í þegar áhöfn TF-SYN fór í gæsluflug í dag. 

Matt og Pete eru frændur en feður þeirra störfuðu báðir í flugbransanum, nánar tiltekið hjá fyrirtækinu Smiths, sem hannaði fyrsta sjálfvirka lendingarbúnaðinn að þeirra sögn.  Matt og Pete hafa lengi verið áhugasamir um flug en hvorugur þeirra hefur þó tekið flugpróf. Þeir taka myndir af flugvélum og hafa sett sér það markmið að fljúga í sem flestum flugvélategundum, sérstaklega þeim flugvélum sem komnar eru nokkuð til ára sinna. 

Matt vinnur fyrir Air Canada og hefur það auðveldað ferðalög þeirra frænda. Þeir fundu upplýsingar um TF-SYN á heimasíðu á Internetinu sem fjallar um Fokker 27 flugvélar.  Þá kom í ljós að flestar slíkar vélar eru notaðar í fraktflug eða flug með embættismenn eða í farþegaflug í löndum eins og Pakistan og Lýbíu.

Matt og Pete voru hæstánægðir með flugferðina og hafa nú bætt F-27-flugi í reynslubankann. Þeir töldu að gott ástand TF-SYN væri til marks um það hversu góða flugvirkja Landhelgisgæslan hefur.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd DS:  Áhöfn TF-SYN, aftari röð frá vinstri Birgir H. Björnsson stýrimaður, Páll Geirdal stýrimaður, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Magnús Örn Einarsson stýrimaður og Tómas Helgason flugstjóri. Fremri röð: Matt Wise og Pete Towey.

Mynd 2: Flugvirkjarnir Sverrir Erlingsson og Jón Pálsson.  Jón Pálsson hefur starfað hjá Landhelgisgæslunni í 23 ár og þekkir því vel til Fokkersins sem Landhelgisgæslan fékk árið 1977.  Hún var reyndar framleidd árið 1976 en kom ekki strax til landsins þar sem Fokker verksmiðjurnar þurftu að gera sérstakar breytingar á henni vegna þeirrar starfsemi sem hún var ætluð í.  Að sögn Jóns hefur flugvélinni alltaf verið vel við haldið og er hún í mjög góðu ástandi í dag þrátt fyrir háan aldur. Tækjabúnaður vélarinnar sé samt sem áður barn síns tíma eins og eðlilegt sé miðað við þær tækninýjungar sem átt hafa sér stað sl. 28 ár.