Varnarliðsþyrlur, í fylgd TF-SYN, sóttu slasaðan rússneskan sjóliða

Þriðjudagur 14. september 2004.

 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu frá Varnarliðinu kl. 13:17 um að rússnesk yfirvöld hefðu óskað aðstoðar vegna slasaðs manns um borð í rússneska herskipinu Admiral Chabanenko. Skipið var þá statt 230 sjómílur suðsuðaustur af Reykjavík.  Læknir var um borð í Admiral Chabanenko og hafði hann gert aðgerð á hinum slasaða en nauðsynlegt var að flytja hann á sjúkrahús.

 

Varnarliðið var reiðubúið að senda tvær þyrlur af stað en óskaði eftir fylgdarflugvél frá Landhelgisgæslunni þar sem um svo langa vegalengd var að ræða.  Þyrlur Varnarliðsins fóru af stað um kl. 13:50. 

 

Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar,TF-SYN, var í gæsluflugi þegar tilkynningin barst og lenti á Reykjavíkurflugvelli til að taka eldsneyti en hélt síðan af stað til fylgdar þyrlunum kl. 15:24. 

 

Önnur varnarliðsþyrlan lenti með hinn slasaða við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl.

17:50 og TF-SYN lenti á Reykjavíkurflugvelli um svipað leyti.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.