Northern Challenge 2004 fær góða dóma á heimasíðu norska sjóhersins

Þriðjudagur 7. september 2004.

 

Á heimasíðu norska sjóhersins er fjallað um fjölþjóðlega æfingu sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge 2004, sem Landhelgisgæslan stóð fyrir í samvinnu við Varnarliðið frá 30. ágúst – 3. september.  Þar er meðal annars viðtal við yfirmann sprengjueyðingarsveita norska sjóhersins, Morten A. Høvik og haft eftir honum að hann hafi ekki upplifað eins árangursríka æfingu á þessu sviði í fleiri ár. Sjá fréttina á slóðinni: http://www.mil.no/sjo/start/article.jhtml?articleID=82403

 

Í viðtali við Morten kemur m.a. fram að unnið hafi verið frá kl. 7 á morgnana og stundum fram á nótt.  Keppendum gafst lítið tóm til að kynnast landi og þjóð þar sem dagskrá æfingarinnar var mjög þétt en sum liðin fóru í stutta skoðunarferð sl. laugardag áður en landið var yfirgefið.

 

Á æfingunni náðu sprengjueyðingarsveitirnar að ljúka 130 verkefnum á árangursríkan hátt.  Áhöfn varðskipsins Týs tók virkan þátt í æfingunni í samvinnu við kafarasveit Landhelgisgæslunnar en viðbrögð við hryðjuverkum í höfnum voru sérstaklega æfð í tilefni af nýjum lögum um siglingavernd.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tóku á meðan á æfingunni stóð, m.a. af sprengjusérfræðingum og vélmenni að störfum og stjórnstöð æfingarinnar í hýbýlum varnarliðsins.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.