Fjörutíu og tveir varðskipsnemar hafa verið hjá Landhelgisgæslunni í sumar

Miðvikudagur 25. ágúst 2004.

Landhelgisgæslan í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur boðið nemendum 10. bekkja grunnskólanna að fara sem nemar í eina ferð með varðskipi yfir sumartímann.  Að jafnaði fara sex nemar í hverja ferð. Í sumar hafa fjörutíu og tveir varðskipsnemar stundað nám og störf´á varðskipunum Ægi og Tý.

Áður en nemarnir halda til hafs fara þeir í kynnisferð um aðrar starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar.  Þar er helst að nefna höfuðstöðvarnar á Seljavegi 32 þar sem skrifstofan, stjórnstöðin, sprengjudeildin, sjómælingadeildin (Sjómælingar Íslands), varðskipatæknideildin  og lagerinn eru til húsa. Einnig er farið út á Reykjavíkurflugvöll þar sem flugdeildin og flugtæknideildin eru staðsettar.

Varðskipsnemar ganga í öll störf um borð í varðskipunum.  Þeir standa vaktir í brú, vél, eldhúsi og á þilfari. Reynt er að hafa það fyrirkomulag að þeir kynnist sem flestum störfum um borð og eru þeir því 3 daga á hverri vaktstöð. Þegar varðskipsmenn fara í eftirlitsferðir um borð í fiskiskip fær yfirleitt einn varðskipsnemi að fylgjast með.

Skipherrar á varðskipunum hafa góða reynslu af varðskipsnemunum og eru ánægðir með að geta með þessu móti kynnt unglingum störfin um borð í þeirri von að einhverjir þeirra skili sér til starfa seinna meir. 

Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók af varðskipsnemum í sumar.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd/JPÁ:  Már Nikulás Ágústsson fægir skipsbjölluna í brúnni á varðskipinu Ægi.

Mynd/JPÁ:  Varðskipsnemar á Tý: Eyþór Björnsson,  Kópavogi, Eyþór Snorrason, Reykjavík, Jóhann I. Hannesson, Njarðvík, Gísli Líndal Karvelsson, Akranesi, Ægir Ægisson, Ólafsvík, Róbert Sædal Geirsson, Njarðvík.

 

Varðskipsnemar um borð í léttbát varðskipsins Ægis ásamt Hreggviði Símonarsyni stýrimanni er léttbáturinn fylgdi sundkonunni Viktoríu Áskelsdóttur á sundi hennar á Breiðafirði í sumar.