Samstarf við Landmælingar Íslands - endurmæling á grunnstöðvaneti

Föstudagur 20. ágúst 2004.

Í ágústmánuði hafa Landmælingar Íslands í samvinnu við aðrar ríkisstofnanir staðið fyrir endurmælingu grunnstöðvanetsins.  Markmiðið er að útvega fullgilda og áreiðanlega undirstöðu fyrir allar mælingar hvort sem er á vegum hins opinbera eða einkaaðila eins og fram kemur á heimasíðu Landmælinga Íslands.  Vegna flekareks Evrópu- og Ameríkuflekanna og jarðskorpuhreyfinga er nauðsynlegt að endurmæla með reglulegu millibili.

 

Landhelgisgæslan tók þátt í verkefninu með því að flytja mælingamenn með þyrlu á afskekkta staði á Vestfjörðum.  Einnig tók starfsmaður sjómælingadeildar, Hjördís Linda Jónsdóttir, þátt í mælingunum frá 3.-14. ágúst og hafði til afnota bifreið sjómælingadeildar (Sjómælinga Íslands).  Hjördís fór m.a. til Grímseyjar, í Jökulheima, Vestmannaeyjar og Flatey. Að hennar sögn var þetta afskaplega spennandi og lærdómsríkt verkefni og verður gaman að sjá niðurstöður mælinganna þegar þær verða birtar. 

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá Hjördísi Lindu við sjómælingabílinn í Jökulheimum og sést Vatnajökull í baksýn.  Einnig er mynd af mælingamönnum að stilla upp tækjum sínum á Hornströndum en áhöfn TF-SYN flutti þá þangað. Heyrst hefur að áhöfnin hafi komið berjablá úr leiðangrinum enda var krökkt af berjum á svæðinu.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.