Strand hvalaskoðunarbátsins Náttfara frá Húsavík

Föstudagur 13. ágúst 2004.

Hvalaskoðunarbátinn Náttfara frá Húsavík tók niðri á malarrifi við norðanverða Lundey á Skjálfanda um kvöldmatarleytið í gærkvöldi.  Um borð í bátnum voru 77 farþegar og fjögurra manna áhöfn.

Sjómælingabátur Landhelgisgæslunnar, Baldur, var staddur á Tjörnesgrunni og varðskipið Týr var einnig við eftirlitsstörf út af Norð-Austurlandi.  Áhafnir beggja skipanna heyrðu óljós talstöðvarsamskipti um að skip ætti í erfiðleikum á Skjálfandaflóa en ekki kom skýrt fram hvar eða hvaða bát var um að ræða.  Í framhaldinu bað skipherra varðskipsins stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að kanna hvort slys hefði orðið á svæðinu.

Þegar áhöfn sjómælingabátsins Baldurs fékk nánari upplýsingar um málið var bátnum siglt í átt að Lundey.  Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar skipstjóra á Baldri kom ósk frá björgunarsveitinni Garðari á Húsavík um að sjómælingabáturinn tæki að sér að draga Náttfara á flot og útvega dráttartóg.  Í áhöfn Baldurs var kafari og var einnig óskað aðstoðar hans ef á þyrfti að halda. 

Varðskipið Týr sigldi einnig á fullri ferð í átt að Náttfara og þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF, sem var í verkefni á Hornströndum, var einnig sett í viðbragðsstöðu.

Er sjómælingabáturinn Baldur kom að Náttfara hafði náðst að koma hvalaskoðunarbátnum á flot á flóðinu og reyndist því ekki þörf á aðstoð. Varðskipið var þá enn nokkuð fjarri Lundey og sneri það til fyrri starfa auk þess sem þyrlan var afturkölluð.

Á meðan á björgunaraðgerðum stóð var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í sambandi við hvalaskoðunarbátinn og lagði m.a. til að allir farþegar yrðu fluttir frá borði áður en reynt yrði að draga hvalaskoðunarbátinn á flot.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.