Útkall vegna eldsvoða í bát

Miðvikudagur 11. ágúst 2004

Maður bjargaðist um borð í nærstaddan bát eftir að eldsvoði kom upp í bát hans um hádegisbilið í dag.

Varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar heyrði kl. 12:30 á rás 16 að svartur reykur sæist 7 sjómílur vestur af Garðskaga.  Í kjölfarið var þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar kölluð út.  Varnarliðið var með þyrlu í flugtaki þegar tilkynningin barst og hélt rakleiðis á staðinn að beiðni Landhelgisgæslunnar. 

Skömmu síðar, kl. 12:42, barst tilkynning frá neta- og handfærabátnum Fúsa SH-162 um að reykurinn stafaði frá bát sem eldur hafi komið upp í og að einn maður væri í sjónum í flotgalla. Um var að ræða fiskibátinn Eyrarröst KE-25 sem gerður er út frá Keflavík.

Þegar varnarliðsþyrlan kom á staðinn hafði manninum verið bjargað um borð í Fúsa sem sá um að koma honum undir læknis hendur.  Varnarliðsþyrlan sneri þá við og þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig afturkölluð.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.