Landhelgisgæslan tekur þátt í samstarfsverkefni Evrópusambandsins sem miðar að því að finna skip, greina endurvörp frá skipum og bera kennsl á þau

Föstudagur 6. ágúst 2004.

 

Landhelgisgæslan er þátttakandi í hinu svokallaða IMPAST verkefni (Improving Fisheries Monitoring by Integrating Passive and Active Satellite Technologies) sem rekið er af Evrópusambandinu.

Verkefninu er stjórnað af rannsóknarstofnun Evrópusambandsins á Ítalíu. Verkefnið hófst árið 2002 og lýkur árið 2004. Að sögn Gylfa Geirssonar forstöðumanns fjarskipta- og upplýsingatæknideildar Landhelgisgæslunnar er eitt af markmiðum verkefnisins að greina nákvæmlega ratsjárendurvörp frá skipum og reyna að bera kennsl á þau aftur af endurvarpinu eingöngu. Þannig eru upplýsingar um endurvarpið geymdar í gagnagrunni og þegar mynd næst af skipinu aftur er gerður samanbuður á endurvörpunum við þær myndir sem þegar eru til.

Notaðir eru láfleygir ratsjárgervihnettir og eru bornar saman upplýsingar frá þeim við upplýsingar úr fjareftirlitskerfum ásamt upplýsingum frá varðskipum og gæsluflugvélum um skipaferðir.  Hnettirnir fljúga í um 800 kílómetra hæð yfir jörðu og taka mynd af svæði sem er um 300 X 300 kílómetrar.  Kerfi sem þetta getur að öllum líkindum aukið mjög öryggi í siglingum og auðveldað björgun skipa.  Þetta kerfi gerir eftirlit varðskipa og gæsluloftfara markvissara en kemur þó engan veginn í staðinn fyrir slíkt hefðbundið eftirlit. 

 

Á meðfylgjandi myndum sjást útlínur radarsvæðisins á Reykjaneshrygg og skip innan þess, en verkefnið hefur m.a. beinst að karfasvæðinu þar.

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Upplýsingar frá TF-SYN um skip við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg milli kl. 6:56 og 9:17 28. júlí 2004.

 

Upplýsingar frá TF-SYN um skip við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg milli kl. 6:56 og 9:17 28. júlí 2004 bornar saman við Impast-ratsjármynd frá kl. 8:20 sama dag.  Grænu punktarnir sýna skip þar sem upplýsingar frá SYN og IMPAST eru þær sömu, bláu punktarnir sýna skip sem eingöngu sjást frá TF-SYN og rauðu sem eingöngu sjást með IMPAST ratsjá.

 

Impast-ratsjármynd af skipum á lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg 11. júlí 2004.

 

Impast-ratsjármynd af skipum á lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg 17. júní 2004.

 

Impast-ratsjármynd af skipum á lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg 20. júní 2003.

 

 

Á þessari mynd sjást ratsjárendurvörp tveggja skipa.  Við hlið myndar af ratsjárendurvarpi er skipið sem ratsjáin var að mynda.  Næst þegar skipið siglir um svæðið getur ratsjáin borið kennsl á það því að ratsjárendurvörp skipa eru mjög mismunandi.