Kona lést eftir bílveltu við Valdalæk í Vestur-Húnavatnssýslu. Samferðarkona hennar flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús í Reykjavík

Miðvikudagur 21. júlí 2004.

Kona lést og önnur slasaðist alvarlega eftir bílveltu við Valdalæk í Vestur-Húnavatnssýslu um tíuleytið í gærkvöldi.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 22:02 og lét vita af bílslysi  við Valdalæk  á Vatnsnesi við Húnafjörð.  Ekki var vitað hversu alvarlegt slysið væri en lögregla og læknir voru á leiðinni á staðinn.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út.  Skömmu síðar var tilkynnt að þrír farþegar væru alvarlega slasaðir.

TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 22:29 og lenti á slysstað kl. 23:16.  Þá var ein kona látin.  Slösuð samferðarkona hennar var flutt á Landspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík og lenti þyrlan þar kl. 00:21 eftir miðnætti í nótt.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.