Mæðgin flutt með þyrlu á sjúkrahús eftir bílveltu í Langadal

Þriðjudagur 20. júlí 2004.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 16:20 og tilkynnti um umferðarslys við bæinn Hólabæ í Langadal rétt hjá Blönduósi. Tvær konur og tvö börn voru í bílnum og var talið að önnur konan væri talsvert slösuð.  Bíllinn hafði oltið.  Tveimur mínútum síðar tilkynnti Neyðarlínan að læknir á staðnum óskaði eftir þyrlu.

Áhöfn TF-LIF var þá við æfingar með áhöfn varðskipsins Ægis á Eyjafirði.  Tekið var eldsneyti á Akureyri og haldið þaðan kl. 16:56.  Lent var á Blönduósi kl. 17:25 og þar var slasaða konan ásamt syni sínum tekin um borð. 

TF-LIF fór frá Blönduósi kl. 17:46 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 18:32.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.