Tvö útköll vegna slasaðra ferðamanna og beiðni um björgun kajakræðara

Þriðjudagur 6. júlí 2004.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:51 vegna konu sem hafði slasast við að falla af vélsleða á sunnanverðum Langjökli.  Hún var talin vera mjaðmagrindarbrotin.  Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 15:56 og fór þyrlan í loftið kl. 16:23.  Það tók um hálftíma að komast á slysstað og var þyrlan komin að Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi með hina slösuðu kl. 17:28.

Tæpri klukkustund síðar, kl. 18:25, hringdi læknir á Patreksfirði og óskaði eftir þyrlu í viðbragðsstöðu vegna konu sem hafði fótbrotnað í Látrabjargi.  Lögreglan á Patreksfirði lét vita kl. 19 að björgunarsveitarbíll væri á leiðinni en skyggni væri ekki gott.  TF-SIF fór í loftið kl. 19:04 og lenti í Látravík um kl. 20 en ekki var hægt að lenda á slysstað vegna þoku.  Björgunarsveitarmenn komu með konuna til Látravíkur u.þ.b. hálftíma síðar og hélt þyrlan af stað til Reykjavíkur kl. 20:40. 

Skömmu síðar var tilkynnt um mann sem hafði fallið úr kajak og lent í sjónum út af Knarrarnesi á Mýrum og óskað eftir að þyrlan bjargaði honum.  Þá var TF-SIF u.þ.b. 13 sjómílur frá staðnum en þegar hún kom á vettvang hafði maðurinn bjargast um borð í nærstaddan bát.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl. 22.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.