Varðskipið Týr dró flutningaskipið Hernes úr strandi

Miðvikudagur 26. maí 2004.

 

Varðskipið Týr náði að draga vikurflutningaskipið Hernes úr strandi við innsiglinguna í Þorlákshöfn um kl. 23:20 í kvöld.

 

Eins og kunnugt er strandaði flutningaskipið Hernes við innsiglinguna í Þorlákshöfn upp úr hádeginu í dag og sendi Landhelgisgæslan þegar varðskipið Tý áleiðis til Þorlákshafnar. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var einnig í viðbragðsstöðu fram á kvöld.

 

Lóðsinn frá Vestmannaeyjum kom á strandstað á undan varðskipinu og var byrjaður að toga í flutningaskipið kl. 19.  Taugin slitnaði en var komið aftur yfir í Hernes og reyndi lóðsinn að toga í skipið til kl. 21.  Þá óskaði skipstjóri Hernes fyrst formlega eftir aðstoð varðskips Landhelgisgæslunnar.

 

Um kl. 21:30 var hafist handa við að koma taug úr varðskipinu yfir í flutningaskipið. Dráttarbáturinn Ölver frá Þorlákshöfn aðstoðaði við að flytja dráttarleggi og dráttartrossu yfir í skipið og hafði tekist að koma taug á milli varðskipsins og Hernes kl. 23.  Þá tengdi lóðsinn frá Vestmannaeyjum sig við stefni varðskipsins til að aðstoða við að halda því í réttri togstefnu.  Laust eftir kl. 23 hóf varðskipið að toga í Hernes og losnaði það af strandstað kl. 23:20. Allhvasst var á svæðinu og veltubrim. 

 

Eins og fram hefur komið var Hernes að halda af stað til Álaborgar í Danmörku er það strandaði við Þorlákshöfn.  Varðskipið Týr er enn með Hernes í togi en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið þar sem verið er að kanna ástand skipsins. 

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.