Áhöfn TF-LIF bjargaði 16 manna áhöfn Baldvins Þorsteinssonar EA-10 eftir að skipið strandaði nærri Skarðsfjöruvita

Þriðjudagur 9. mars 2004.

 

Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar bjargaði í morgun 16 manna áhöfn loðnuskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10 frá Akureyri sem strandaði um 3 sjómílur norð-austur af Skarðsfjöruvita.

 

Skipstjórinn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 3:12 í nótt og lét vita að skipið væri með nótina í skrúfunni um 1.8 sml. undan landi.  Um borð var 16 manna áhöfn.  Þá var loðnuskipið  Bjarni Ólafsson AK-70 að reyna að koma línu yfir í Baldvin.  Veður var SSA 7-11 metrar á sek. og nokkuð brim við ströndina. Fimm önnur skip voru innan við 1 sjómílu frá Baldvin Þorsteinssyni.

 

Um kl. 3:22 hafði varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar aftur haft samband við skipið og fékk þær upplýsingar að illa gengi að koma línu á milli skipanna. 

 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 3:28 eftir samráð við yfirmann gæsluframkvæmda.  Í framhaldinu af því var varðskipið Týr, Tilkynningarskylda íslenskra skipa, strandstöðvar  og Varnarliðið upplýst um ástandið.

 

Aftur var haft samband frá skipinu kl. 3:46 og látið vita að lína hefði slitnað milli skipanna og verið væri að reyna aftur.  Tilkynnt var stuttu síðar að hliðarskrúfur kæmu ekki að gagni og ekkert gengi að ná línu á milli skipanna. 

 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kom þessum upplýsingum á framfæri við Varnarliðið, Tilkynningarskylduna og strandarstöðvar.  Óskað var eftir að Varnarliðið sendi þyrlu til aðstoðar og Neyðarlínan beðin um að koma boðum til lögreglu.  

 

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 4:26.  Veður var það slæmt á Keflavíkurflugvelli að þyrla Varnarliðsins gat ekki haldið strax af stað.  Skipið hafði þá tekið niðri.  Haft var samband við útgerð skipsins og upplýst um ástand og horfur.

 

Um kl. 4:35 hafði skipstjóri Baldvins Þorsteinssonar samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og lét vita að taugin milli skipanna hefði slitnað.  Skipstjórinn hafði aftur samband kl. 4:48 og gaf upp staðsetningu og var þeim upplýsingum komið áfram til viðkomandi aðila, Tilkynningarskylduna, varðskipið Tý og TF-LIF.

 

Skipstjórinn var í stöðugu sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar meðan á þessu stóð og ræddi leiðir til að verja skipið og tryggja öryggi áhafnar sem best. Skipstjóranum var ráðlagt að skipverjar færu ekki í gúmmíbáta við þessar aðstæður. Lagt var til að toghlerar skipsins yrðu settir út til að stýra skipinu gegnum brimgarðinn og láta bæði akkerin falla þegar komið væri í gegnum hann og um leið slaka á toghlerunum þannig að skipið snérist upp í sjó og vind til að verjast áföllum.

 

Skipstjórinn tilkynnti kl. 5 að akkeri hefðu verið látin falla og skipið væri komið inn fyrir ytri brimgarðinn.   Þessum upplýsingum var komið á framfæri við Tilkynningarskylduna og aðra hlutaðeigandi aðila.

 

Um kl. 5:13 heyrðist á rás 16 gegnum fjarhlustun frá strandastöðvunum að Baldvin Þorsteinsson hefði stöðvast og ekki bryti mikið á honum.

 

Varnarliðið hafði samband kl. 5:30 og tilkynnti að þyrla væri að fara af stað en yrði væntanlega ekki á staðnum fyrr en kl. 7:30 í fyrsta lagi.

 

Varðskipið Týr tilkynnti kl. 5:39 að TF-LIF væri hjá Skógum og yrði væntanlega komin á staðinn  kl. 6:10.

 

Áhöfn Baldvins Þorsteinssonar var þá látin vita um áætlaðan komutíma þyrlunnar.  Þá voru bæði akkeri skipsins og hlerar úti.

 

Fyrstu björgunarsveitir voru komnar á staðinn kl. 6.  Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF var komin á strandstað kl. 6:10 og var þá hafist var handa við að koma áhöfninni úr skipinu og var búið að bjarga öllum skipverjum frá borði kl. 7.  Þyrlan flaug síðan til Víkur með áhöfnina fyrir utan skipstjóra og fjóra skipverja sem urðu eftir á strandstað ásamt björgunarsveitarmönnum. 

 

Í áhöfn þyrlunnar eru Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Sigurður Heiðar Wiium flugmaður, Þengill Oddsson læknir, Auðunn Kristinsson stýrimaður/sigmaður og Jón Erlendsson flugvirki/spilmaður.

 

Varðskip er væntanlegt á strandstað um hádegisbilið.

 

Baldvin Þorsteinsson EA-10 er gerður út af Samherja á Akureyri.  Skipið er 2968 brúttótonn, smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 1994.  

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlafulltrúi

 

P.S. Fréttatilkynning þessi var endurskoðuð og henni breytt samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar eftir að formleg skýrsla hennar hafði verið gefin út enda voru ekki allar upplýsingar fyrirliggjandi í skriflegu formi er upphafleg fréttatilkynning var gefin út kl. 7 um morguninn.