Nýjar útgáfur hafnakorta hjá Sjómælingum Íslands

Föstudagur 5. mars 2004.

 

Eins og fram hefur komið hefur Landhelgisgæslan haft afnot af fjölgeislamæli frá hafrannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins undanfarin sumur og eru afurðir mælinga með honum að skila sér frá Sjómælingum Íslands, sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar.

 

Samkvæmt upplýsingum Árna Þórs Vésteinssonar deildarstjóra kortadeildar hafa verið gerðar nýjar útgáfur af 5 hafnakortum.  Í öllum höfnunum höfðu orðið breytingar vegna framkvæmda, annað hvort vegna nýrra hafnarmannvirkja eða breytinga á dýpi eða hvoru tveggja.

 

Hafnakortið af Grindavík var uppfært í samræmi við mælingar sem gerðar voru bæði í innsiglingunni og höfninni með fjölgeislamæli. Á liðnum árum hafa verið miklar framkvæmdir í Grindavík, nýir brimvarnargarðar byggðir og ný innsiglingarrenna gerð. Á Sauðárkróki var búið að lengja viðlegukant og einnig hafði Siglingastofnun mælt dýpi í höfninni. Sandburður er viðvarandi vandamál í innsiglingunni og samkvæmt nýjustu mælingum hefur grynnkað eitthvað þess vegna.

 

Þá hafa hafnakortin af Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn verið uppfærð í samræmi við fjölgeislamælingar. Dæmi um breytingar á hafnakortunum sem af því leiðir eru að á Húsavík fannst ekki grynning sem í kortinu var sýnd skammt suðaustan innsiglingarlínu og hún því tekin út.

 

Á Raufarhöfn fannst hinsvegar grynning sömuleiðis skammt frá innsiglingarlínu og á Þórshöfn komu í ljós skemmdir á bryggju eins og skýrt var frá í fjölmiðlum nýverið.  Vinna við tvær nýjar útgáfur til viðbótar stendur yfir en það eru kort af höfnunum í Sandgerði og Vopnafirði.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

 

Mynd: Ný útgáfa hafnakorts af Grindavík