Kafarar Landhelgisgæslunnar fundu hníf sem leitað var að vegna líkfundarmálsins

Þriðjudagur 3. mars 2004.

Varðskipið Ægir kom til Neskaupstaðar upp úr hádeginu í fyrradag þar sem óskað hafði verið eftir aðstoð kafara Landhelgisgæslunnar við leit að eggvopni vegna rannsóknar á líkfundi í höfninni nýlega.

Köfun hófst kl. hálf fjögur eftir að leitarsvæði hafði verið afmarkað. Þegar köfun var hætt kl. 18:08 hafði hnífurinn, sem leitað var að, ekki fundist.

Í gær hófst köfun kl. 9 um morguninn.  Eftir að aðstæður og upplýsingar höfðu verið endurmetnar var nýtt leitarsvæði afmarkað.  Á ellefta tímanum fannst hnífur sem líklegt er talið að sé eggvopnið sem leitað var að.  Hnífurinn var afhentur lögreglu.

Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru af áhöfn varðskipsins Ægis. 

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd/LHG: Léttbátur varðskipsins Ægis var notaður af köfurum Landhelgisgæslunnar. Sjónarhorn áhafnar Ægis.

Mynd/LHG: Friðrik Hermann Friðriksson kafari leitaði í höfninni ásamt Jónasi Karli Þorvaldssyni og Jóhanni Erni Sigurjónssyni.

Mynd/LHG: Frá vinstri Halldór Gunnlaugsson skipherra, Jónas K. Þorvaldsson, Jóhann Örn Sigurjónsson og Friðrik Hermann Friðriksson kafarar hjá Landhelgisgæslunni og Jónas Wilhelmsson yfirlögregluþjónn Fjarðarbyggðar.