Fjölgeislamælir nýtist við að kanna skemmdir á hafnarmannvirkjum

Miðvikudagur 3. mars 2004.

 

Hafrannsóknastofnun bandaríska sjóhersins hefur enn eitt árið samþykkt að veita Landhelgisgæslunni afnot af fjölgeislamæli til notkunar við mælingar næsta sumar.  Fjölgeislamælirinn er kominn til landsins og verður settur í sjómælingabátinn Baldur þegar hann fer í slipp eftir páska.

 

Fjölgeislamælirinn hefur sannað gildi sitt á margan hátt.  Hann gefur heildstæða mynd af hafsbotninum ólíkt eingeislamæli sem hingað til hefur verið notaður. 

 

Við úrvinnslu mælinga sem gerðar voru með fjölgeislamæli í höfninni á Þórshöfn sl. sumar kom í ljós að jarðvegur hefur hrunið undan innra bryggjuhorni á hafskipabryggjunni á Þórshöfn.  Ómögulegt er að segja hvaða afleiðingar það hefði haft ef skemmdin hefði ekki komið í ljós strax en nú gefst möguleiki á að lagfæra hana og koma í veg fyrir enn meira hrun undan bryggjuþekjunni.

Mælingar með fjölgeislamæli voru einnig gerðar í höfnunum á Raufarhöfn, Húsavík og Vopnafirði. Við skoðun á gögnum frá Raufarhöfn kom í ljós klettur rétt sunnan við beygjuna í innsiglingarrennunni á Raufarhöfn.  Ekki var vitað um þennan klett áður en dýpið niður á hann er 5.5. metrar.

 

Ýmislegt fleira hefur komið í ljós við notkun fjölgeislamælisins sem ekki getur þó talist fela í sér siglingahættu. 

 

Sjá meðfylgjandi þrívíddarmyndir sem sjómælingamenn hafa unnið upp úr mælingagögnum úr fjölgeislamælinum.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Mynd/Landhelgisgæslan: Hér má sjá skemmd á bryggjuhorni á hafskipabryggjunni á Þórshöfn.

Mynd/Landhelgisgæslan:  Á þessari mynd má sjá klettinn sem kom í ljós rétt sunnan við innsiglingarrennuna á Raufarhöfn.