Sjúkraflug vegna slasaðs skipverja um borð í togveiðiskipinu Eykon RE-19

Mánudagur 16. febrúar 2004.

Um kl. 2 í nótt var hringt í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá togveiðiskipinu Eykon RE-19 og óskað eftir þyrlu til að sækja skipverja sem slasast hafði á fæti.  Skipið var þá statt 27 sjómílur vestur af Garðskaga.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 2:43. 

Vegna veðurs og sjólags reyndist erfitt að koma sigmanni um borð í Eykon og var bátnum haldið inn fyrir Garðskaga til að byrja með.  Eftir að læknir í áhöfn TF-LIF hafði rætt við skipstjóra um ástand slasaða skipverjans var tekin ákvörðun um að skipið myndi sigla til Keflavíkur þar sem sjúkrabíll sækti hann. Var áhætta talin of mikil til að reyna hífingu að nýju með hliðsjón af því að hinn slasaði var ekki í lífshættu.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 3:53.

Eykon kom til Keflavíkur með hinn slasaða kl. 7:30 í morgun og var hann fluttur á sjúkrahúsið í Keflavík.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.