Veikt barn á Patreksfirði sótt með þyrlu

Föstudagur 13. febrúar 2004.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug til Patreksfjarðar í dag til að sækja veikt barn.  Ekki þótti fært að senda barnið með sjúkraflugi Íslandsflugs til Reykjavíkur þar sem læknir varð að fylgja því en aðeins var einn læknir á vakt í héraðinu og gat því ekki farið með í sjúkraflugið.

Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 11:59 og fór þyrlan í loftið kl. 12:25. Veðrið hafði verið slæmt um morguninn en hafði gengið niður svo að flugið gekk vel. Lent var við enda brimvarnargarðsins á Patreksfirði kl. 13:21 þar sem barnið var flutt um borð í þyrluna í fylgd foreldra.

TF-LIF flaug frá Patreksfirði kl.13:28 og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 14:40. Þar beið sjúkrabifreið sem flutti barnið á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.