Hafa eytt 60 tonnum af sprengjum - Hlutu viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag

Föstudagur 13. febrúar 2004.

 

Í nýlegri frétt frá danska hernum er sagt frá því að sex menn í dönsku herdeildinni sem starfar í Írak hafi fengið viðurkenningu fyrir einstakt framlag þeirra við skyldustörf. Í herdeildinni eru 600 hermenn og þar af fengu fjórir Danir viðurkenningu og tveir íslenskir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sem starfa með herdeildinni, þeir Adrian King og Jónas Þorvaldsson.

 

Það var breski hershöfðinginn Andrew Stewart, sem er yfirmaður fjölþjóðaherliðsins í suðaustur Írak, sem afhenti þeim innrömmuð viðurkenningarskjöl með orðunum ,,You have made a diffrence” eða ,,ykkar framlag var mikilvægt”.  Hann flaug til Camp Eden með þyrlu til að kveðja dönsku herdeildina sem verður leyst af í þessum mánuði.  Hershöfðinginn hrósaði dönsku herdeildinni og lýsti stolti yfir að hafa starfað með henni síðustu fjóra mánuðina í Írak.

 

Adrian King og Jónas Þorvaldsson koma aftur til starfa hjá Landhelgisgæslunni um mánaðarmótin febrúar-mars en hefja för sína til Íslands 19. febrúar nk.  Dvöl þeirra í Írak hefur verið viðburðarík og mikilvægt framlag til uppbyggingar og mannúðarmála í Írak.  Þeir hafa eytt 60 tonnum af sprengjum á meðan á dvöl þeirra hefur staðið, t.d. eyddu þeir 180 sprengjum í gær, og alls hafa þeir sinnt 80 útköllum. 

 

Meðfylgjandi eru myndir frá athöfninni þegar Adrian og Jónas tóku á móti viðurkennningarskjölunum. Einnig er mynd af Adrian að ræða við Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana sem heimsótti herdeildina í byrjun febrúar en Jónas stendur hjá í hlífðarbúningi sem sprengjusérfræðingar nota við störf sín.

 

Sjá á frétt frá afhendingu viðurkenningaskjala á heimasíðu danska hersins:

http://www.hok.dk/more.php?id=507_0_1_0_C

 

Sjá frétt af sprengjueyðingu í mannúðarskyni þar sem mynd er af Jónasi og Adrian og þeir sagðir vera danskir Írakshermenn:

http://www.hok.dk/more.php?id=503_0_1_0_C

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

Mynd LHG: Jónas tekur við viðurkenningarskjali.

Mynd LHG: Adrian tekur við viðiurkenningarskjali

Mynd LHG: Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana ræðir við Adrian King.