Kræklingagirðing hirt úr sjó til að tryggja öryggi sjófarenda

Fimmtudagur 5. febrúar 2004.

 

Störf áhafna varðskipa eru af margvíslegum toga.  Nýlega fékk áhöfn varðskipsins Ægis það verkefni að ná upp kræklingagirðingu sem sett hafði verið út í Hvammsvík haustið 2001.  Að sögn Halldórs Nellett skipherra á Ægi höfðu eigendur girðingarinnar ætlað að láta hana vera í sjó í 2 ár og safna kræklingi sem síðan átti að nýta.  Girðingin er um 100 metra löng, þ.e. höfuðlínan, og var hún fest með fjórum akkerum. 

 

Fyrsta veturinn gekk allt vel en seinni veturinn lagði fjörðinn og þegar hvessti reif ísinn girðinguna út á fjörð og flæktist hún þá öll og skapaði siglingahættu t.d. fyrir olíuskip sem sigla reglulega um þetta svæði.

 

Girðingin er gerð samkvæmt skoskri fyrirmynd og hefði getað þjónað sínu hlutverki vel ef ísinn hefði ekki komið til.  Eigendur girðingarinnar eru ekki af baki dottnir og ætla jafnvel næst að fara að dæmi Kanadamanna sem sökkva girðingum sínum þegar sjó fer að leggja.

 

Vel gekk að hífa girðinguna um borð í varðskipið.  Hún var þó talsvert þung og öll í flækju. Síðan var siglt með hana til Akraness þar sem hún var tekin í land í höfninni. 

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem varðskipsmenn tóku þegar verið var að hífa girðinguna um borð.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.