Skipstjóri Breka dæmdur fyrir fiskveiðibrot

Mánudagur 21. desember 2003.

Skipstjóri Breka VE-61 var nýlega dæmdur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að hafa sunnudaginn 10. ágúst 2003 verið á togveiðum með fiskvörpu á Stokknesgrunni, á svæði sem er 7.5 sjómílur innan línu, þar sem allar togveiðar með vörpu án smáfiskaskilju eru bannaðar. 

Við rannsókn varðskipsmanna af v/s Ægi kom í ljós að varpa togarans var ekki búin smáfiskaskilju eins og reglur segja til um. Taldist brot þetta varða við reglugerð um verndun smáfisks við tog- og dragnótarveiðar fyrir Suðausturlandi og lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Skipstjórinn var dæmdur til að greiða kr. 600 þúsund kr. í sekt í Landhelgissjóð og var gert að sæta upptöku veiðarfæra að andvirði kr. 50 þúsund kr. og upptöku afla að fjárhæð kr. 249.450.  Einnig var hann dæmdur til að greiða verjanda sínum 80 þús. krónur í málsvarnarlaun.  Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði gekkst greiðlega við broti sínu og var lagt til grundvallar að um gáleysisbrot hafi verið að ræða.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.