Minningarathöfn um áhöfn björgunarþyrlunnar TF-RÁN

Laugardagur 8. nóvember 2003.

Í dag var haldin minningarathöfn um þá sem fórust með björgunarþyrlunni TF-RÁN í Jökulfjörðum fyrir tuttugu árum. Með þyrlunni fórust Björn Jónsson flugstjóri, Þórhallur Karlsson flugstjóri, Sigurjón Ingi Sigurjónsson stýrimaður og Bjarni Jóhannesson flugvirki.

Athöfnin hófst kl. 11 við Öldurnar við Fossvogskapellu, en nafn  Björns Jónssonar flugstjóra hafði verið sett á eina ölduna, þar sem jarðneskar leifar hans hafa ekki fundist.

Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flutti bæn og að athöfn lokinni var viðstöddum boðið í móttöku í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Aðstandendum hinna látnu var sérstaklega boðið til minningarathafnarinnar. 

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar mættu einkennisklæddir og vottuðu fyrrum starfsfélögum virðingu sína.