Fallbyssuæfingar á haustdögum

Miðvikudagur 8. október 2003.

 

Sem betur fer þurfa áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar sjaldan að grípa til vopna og því eru fallbyssur skipanna ekki mikið notaðar.  Nú til dags gerist það helst þegar erlend herskip koma í heimsókn en þá er samkvæmt alþjóðlegum prótókollreglum tilhlýðilegt að skjóta fallbyssuskotum í heiðursskyni.  Síðast gerðist það þegar rússneska herskipið Admiral Tchabanenko kom hingað í opinbera heimsókn til Landhelgisgæslunnar í ágúst 2002.  Við brottför herskipsins var skotið 21 fallbyssuskoti til heiðurs íslensku þjóðinni og fána Íslands.  Á móti skutu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar 21 fallbyssuskoti til heiðurs rússnesku þjóðinni og fána Rússlands.

 

Á árum áður voru fallbyssur m.a. notaðar til að skjóta púðurskotum að fiskiskipum sem svöruðu ekki kalli og ef menn létu sér ekki segjast gátu þeir átt von á að fá fallbyssukúlu í skipið.  Fallbyssur voru lítið notaðar í þorskastríðunum en þó kom það fyrir.  

 

Fallbyssurnar sem nú eru á varðskipunum eru af gerðinni Bofors L60 með 40 mm. hlaupvídd og geta þær skotið 120-160 skotum á mínútu eða tveimur til þremur skotum á sekúndu á skotmörk í allt að þriggja kílómetra fjarlægð.  Til að skjóta af byssunni þarf þriggja manna byssuáhöfn auk yfirmanns í brú sem veitir upplýsingar um fjarlægð og stefnu á skotmarkið og gefur fyrirmæli um hvenær hleypa á af.

 

Þótt að fátítt sé að fallbyssurnar séu notaðar þykir nauðsynlegt að Landhelgisgæslumenn viðhaldi kunnáttu í notkun þeirra.  Æfingar eru að jafnaði haldnar tvisvar á ári og hafa sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar umsjón með þeim.  Nýlega lauk fallbyssuæfingum á varðskipunum Ægi og Tý.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var stór dunkur notaður sem skotmark og tókst mönnum allvel að hitta í mark.  Myndirnar tók Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi.

 

Dagmar Sigurðardóttir

upplýsingafulltrúi