Sjómælingar hafa gengið vel í ár

Mánudagur 29. september 2003.

 

Sjómælingabáturinn Baldur er gerður út frá vorbyrjun á hverju ári og er reynt að mæla eins mikið og kostur er fram á haust, á meðan veður leyfir.  Nýlega lauk mælingatímabili ársins hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar. Sjómælingabáturinn Baldur var við mælingar á Austfjörðum og á hafinu þar austur af vegna endurgerðar korts númer 73 sem nær yfir stærstan hluta Austfjarða. 

 

Á tímabilinu var bátnum einnig siglt norður á Skjálfanda vegna aðstoðar við botnlagskönnunarverkefnis á vegum Raunvísindadeildar Háskólans.   Við það tækifæri dvöldu nokkrir  heimsþekktir vísindamenn á þessu sviði um borð í Baldri á meðan á mælingunum stóð.  Allt hjálpaðist að, gott veður, góður tækjabúnaður og reyndir mælingamenn.  Verkefnið gekk því vonum framar og lauk innan þeirra tímamarka sem áætluð höfðu verið.

 

Er Baldri var aftur siglt til Austfjarða var komið við í nokkrum höfnum á Norð-Austurlandi til að mæla aðsiglingarsvæði þeirra og innsiglingarennur.  Þá kom að góðum notum fjölgeislamælir sem Landhelgisgæslan hefur afnot af vegna samnings við Hafrannsóknastofnun bandaríska sjóhersins.

 

Áhöfn Baldurs hélt áfram að mæla syðst á Austfjarðasvæðinu frá miðjum ágúst og fram í miðjan september.  Þá var Baldri siglt til Reykjavíkur, fjölgeislamælirinn ásamt tilheyrandi búnaði tekinn úr honum og gengið frá bátnum fyrir veturinn.

 

Þar næst var mælingabúnaður settur um borð í varðskipið Ægi vegna fyrirhugaðra mælinga á ytri svæðunum í korti 73 en þar hentar stærra skip betur til mælinga vegna sjólags og strauma.  Verkefnið á Ægi gekk vel og voru 1500 sjómílur, alls um 1350 ferkílómetra stórt svæði, mælt samkvæmt stöðlum Alþjóða Sjómælingastofnunarinnar á 10 dögum.

 

Sjómælingatímabilið í ár gekk í heildina vel þótt þoka og súld hrelldi Austfirðinga stóran hluta saumarsins.  Það kom ekki að sök við mælingar því að logn og stillur voru tíðar í austfjarðaþokunni.  Þegar veður og sjólag leyfði ekki mælingar utan fjarða var tíminn nýttur til mælinga innan fjarða.  Það kom því varla fyrir að hætta þyrfti mælingum af þeim sökum.

 

Starfsmenn sjómælingadeildar sjá fram á annasaman vetur við úrvinnslu þeirra gagna sem safnað var yfir sumarmánuðina.  Um er að ræða 6500 sjómílur af dýptarmæligögnum sem þarf að flokka eftir dýpi og yfirfara og leiðrétta með tilliti til truflana, sjávarfalla og hljóðhraða.  Að því loknu eru gögnin afhent starfsmönnum kortadeildar sem setja þau eftir kúnstarinnar reglum inn í sjókort.

 

Þar sem mælingar gengu svo vel fyrir austan eru allar líkur á að því takmarki verði náð að ljúka mælingum vegna endurnýjunar og nútímavæðingar korts 73 fyrir haustið 2004.  Vænta má nýrrar útgáfu af því korti árið 2005 eins og áætlað var en um það leyti má búast við að stór og djúprist skip verði algeng á þessum slóðum vegna fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði.

 

Dagmar Sigurðardóttir                 Ásgrímur Ásgrímsson

upplýsingafulltrúi                        deildarstjóri sjómælingadeildar

 

 

Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Hafsteinn forstjóri ásamt Brjáni matsveini/bátsmanni  og Benedikt vélstjóra þegar Hafsteinn kom í heimsókn um borð í Baldur í sumar á meðan á vísindaverkefninu á Skjálfanda stóð.

 

 

Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Baldur við mælingar fyrir austan land.

 

 

Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Varðskipið Ægir við mælingar austur af landinu.

 

 

 

Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Þrívíddarmynd af mælingasvæði varðskipsins Ægis.  Greinilega má sjá hluta Norðfjarðardjúps og Seyðisfjarðardjúps (bláu svæðin) þar sem horft er eftir svæðinu úr austri til vesturs.