Dómsmálaráðherra heimsækir Landhelgisgæsluna

Miðvikudagur 3. september 2003

Dómsmálaráðherra kom til Landhelgisgæslunnar í vikunni, nánar tiltekið 1. september sl., ásamt nánustu samstarfsmönnum til að kynna sér starfsemi stofnunarinnar.  Heimsóknin hófst um borð í varðskipinu Tý.   Fyrst var skipið skoðað og síðan snæddur hádegisverður um borð.  Eftir það var haldið til höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar að Seljavegi 32 og haldin kynning á starfseminni í heild.  Stjórnstöð  og sjómælingasvið stofnunarinnar voru kynnt sérstaklega.

Í sprengjudeildinni fór fram æfing  meðal annars með vélmenni sem eyddi sprengju.  Að því loknu var farið út á Reykjavíkurflugvöll þar sem aðstaða flugdeildar var skoðuð og síðan haldið í stutt flug með TF-LÍF.

Mánaðardagurinn 1. september er merkisdagur í sögu Íslands en þann dag var fiskveiðilögsagan færð út í 12 sjómílur árið 1958 og 50 sjómílur árið 1972.  Svo skemmtilega vill til að Hafsteinn Hafsteinsson átti einnig 10 ára starfsafmæli sem forstjóri Landhelgisgæslunnar daginn sem ráðherra kom í heimsókn en hann hóf störf 1. september 1993.

Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók meðfylgjandi myndir í heimsókninni.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd: Landhelgisgæslan:  Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri  býður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra velkominn. 

Mynd: Landhelgisgæslan: Kristján Þ. Jónsson skipherra heilsar Stefáni Eiríkssyni skrifstofustjóra dómsmála- og löggæsluskrifstofu.  Ásdís Ingibjargardóttir skrifstofustjóri rekstrarskrifstofu og Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri ganga um borð.

Mynd: Landhelgisgæslan: Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður ráðherra, Björn Friðfinnson ráðuneytisstjóri, Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Kristján Þ. Jónsson skipherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skoða varðskipið Tý.