Northern Challenge lokið

Þriðjudagur 2. september 2003.

Northern Challenge 2003, æfingu sprengjueyðingarsveita, er nú lokið.  Landhelgisgæslan skipulagði og stjórnaði æfingunni en hana sóttu sérfræðingar frá dönskum og bandarískum hernaðaryfirvöldum auk sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Æfingin stóð í fimm daga í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík.

Meginviðfangsefni æfingarinnar var að eyða og gera óvirkar sprengjur hermdarverkamanna.  Allir þáttakendur lýstu yfir ánægju með þjálfunina og sýndu áhuga á að koma á næstu æfingu sem haldin verður að ári.  Bandaríski sjóherinn sendi fréttamenn sem fylgdust náið með æfingunni allan tímann. Fulltrúar bandaríska sjóhersins, frá Evrópuherstjórninni, herlögreglan og íslenska lögreglan á Keflavíkurflugvelli fylgdust einnig með æfingunni en Landhelgisgæslan vinnur náið með lögregluyfirvöldum þar vegna öryggismála.

Margir þátttakendanna höfðu nýlega verið við störf í Miðausturlöndum, þ.á.m. í Írak, þar sem sprengjur valda stöðugri ógn. Einn þátttakendanna hafði á orði að á æfingum sem þessum væri hægt að gera mistök og læra af þeim andstætt því sem gerist í raunveruleikanum þar sem smávægileg yfirsjón getur haft alvarlegar afleiðingar.

Landhelgisgæslan átti gott samstarf við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins vegna æfingarinnar og við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sem veitti ómetanlega aðstoð og aðstöðu svo hægt var að framkvæma æfinguna á sem raunverulegastan hátt.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd: Landhelgisgæslan- sprengjudeild: Sprengjusérfræðingur tekur röntgenmynd af bréfasprengju.

Mynd: Landhelgisgæslan- sprengjudeild: Sprengjusérfræðingur býr sig undir að aftengja bílasprengju.

Mynd: Landhelgisgæslan- sprengjudeild: Sprengjusérfræðingur ræðir við fórnarlamb sem heldur á bréfasprengju og þorir ekki að hreyfa sig. Næsta skref er að taka röntgenmynd af bréfinu.