Fjöldi sprengja hefur fundist á Vogaheiði

Sameiginleg fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu og Landhelgisgæslu Íslands

Eins og fram kom í fréttum fann barn virka sprengju úr sprengjuvörpu á Vogaheiði 12. apríl sl.  Síðan hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins rannsakað svæðið við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.  Bandaríski herinn notaði svæðið frá 1952-1960 til að æfa skotárásir með sprengjuvörpum, fallbyssum, skriðdrekum og öðrum vopnum sem landherir nota.

Frá 12. apríl hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fundið og eytt yfir 70 virkum sprengjum á fyrrum skotæfingasvæðinu.  Samanlagt innihalda þessar sprengjur 60 kíló af TNT og öðrum sprengiefnum.  Meirihluti sprengjanna fannst nálægt útivistarsvæðinu við Snorrastaðatjarnir.  Um er að ræða allt frá 60 mm. sprengjum úr sprengjuvörpum til 105 mm. fallbyssukúla sem m.a. eru notaðar til að ráðast á skriðdreka.  Þetta eru hættulegar sprengjur sem geta valdið slysum og dauða ef hreyft er við þeim.

Árið 1986 og 1996 gerði varnarliðið umfangsmikla yfirborðsleit að sprengjum á svæðinu.  Við leitina fundust alls 600 virkar sprengjur.  Í kjölfar þess voru sett upp aðvörunarskilti á svæðinu sem gert er ráð fyrir að verði endurnýjuð á næstunni. Samtímis verður svæðið rannsakað betur til að gera það öruggt yfirferðar. 

Hernaðarsprengjur eru hannaðar til að bana fólki og eyðileggja eignir.  Sprengjurnar á Vogaheiði eru ekki frábrugðnar þeim að neinu leyti.  Þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna eru þær jafn virkar og þær voru í upphafi, jafnvel enn hættulegri.  Landhelgisgæslan varar fók við að snerta eða taka upp hluti sem grunur leikur á að séu sprengjur.  Réttu viðbrögðin eru að merkja staðinn, yfirgefa svæðið og láta lögreglu eða Landhelgisgæsluna vita tafarlaust.

Meðfylgjandi eru myndir af sprengjum sem fundust við Snorrastaðatjarnir.  Þeim hefur nú verið eytt.

Mynd:  Landhelgisgæslan / sprengjudeild

Mynd: Snævarr Guðmundsson / Myndin var tekin á Vogaheiði rétt eftir að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengdu í loft upp ósprungnar sprengjur sem fundist höfðu við Snorrastaðatjarnir.

Mynd:  Landhelgisgæslan / sprengjudeild